Wednesday, October 13, 2010

WAVVES - KING OF THE BEACH




Hvað er þetta eiginlega? Ha? Eitthvað freðið surf lo-fi pönk? Ertu að frétta eða? Bara koverið er nógu steikt til að fá Ravi Shankar til að efast um tilvist sína. Þetta er eiginlega frekar töff samt. Jafn töff og tónlistarstefnan hljómar bjánalega. Þetta lyktar af Kaliforníu, brimbrettum og ólöglegum skynvíkkandi efnum. Ef ég væri ekki alltaf haugur og einskins nýtur ónytjungur hefði ég tékkað á þessari plötu fyrr og rokkað hana í allt sumar meðan ég væri að grilla og drekka bjór og ódýr wayfarer sólgleraugu á nefinu. Ég verð að viðurkenna að þetta minnir skuggalega mikið á Jay Reatard vin minn. Það er að segja ef hann væri að sörfa í hawaii-skyrtu. Það er samt bara frekar næs þar sem sá góði maður er fallinn frá og fyrir mér er þetta band tilvalinn staðgengill hans. Þetta er samt nett sýrðara en gengur og gerist samt með þægilegum feelgood vibes. Það er vel séð á þessum síðustu og verstu. Útvegið ykkur þessari plötu ef þið viljið vera í fíling og framlengja aðeins sumarinu og fresta volæði vetrarins.

http://www.myspace.com/wavves
Hlustið sérstaklega á lagið Post Acid.

Tuesday, October 5, 2010

SEVERED CROTCH - THE NATURE OF ENTROPY




Fá bönd hafa fest sig jafn rækilega í sessi í íslensku þungarokkssenunni eins og Severed Crotch. Ekki einungis hafa þeir verið að gleðja okkur með fyrirtaks dauðarokki í gegnum árin heldur hafa þeir einnig verið í stöðugri þróun og verið óhræddir við að gera eitthvað nýtt og koma sér útúr því "hefðbundna". Í sumar kom út fyrsta plata þeirra í fullri lengd. Biðið var eftir henni með mikilli eftirvæntingu í talsvert langan tíma á mínum bæ skal ég segja ykkur. Öll vinna í kringum í plötuna er fagmannleg, geggjað kover og flott umslag með textum og almennt góð pródúksjón á lögunum. Severed Crotch gátu sér nafn sem vel brútal og techincal dauðarokksband á sínum tíma en hafa svolítið núna á seinustu misserum skipt um gír. Aðeins minnkað keyrsluna, þó hún sé alveg til staðar á köflum og rúmlega það, og sett meiri melódíu og fleiri grípandi riff í sinn sérkennilega dauðarokks suðupott.
Platan byrjar á einföldu en áhrifaríku píanóintrói en fade-ar svo inní alveg risastóran allsherjar gíatarröddunarpart. Ekki þarf þó að bíða lengi eftir vel útfærðu og smekklegu teknísku dauðarokki því annað lag plötunnar er algjör helvítis dauðarokkssprengja. Gítarleikararnir, Kjartan og Ingvar, eru einmitt alls ekkert að fela gítarhæfileika sína frekar en fyrri daginn og andskotinn hafi það ef Ingó söngvari sveitarinnar er ekki andsetinn. Þetta gefur góð fyrirheit um framhald plötunnar. Vel uppbyggt teknískt dauðarokk sem sleppur alveg við að vera laust úr samhengi eins og svo mörg önnur bönd í þessum geira. Þeir halda svo uppteknum hætti á næsta lagi plötunnar, Ecstsy In Death, en það lag inniheldur einmitt líka eitthvað mest brútal breakdown Íslandssögunnar og mjög súra djassparta hjá bassaleikaranum Tóta sem sannar sig sem einn besta þungarokks bassaleikara landsins um þessar mundir. Fjórða lagið á plötunni, Human Recipes, stingur aðeins í stúf við hin lögin á plötunni enda talsvert eldra lag en hin og ekki jafn teknískt þar af leiðandi. Það hefur nú verið algjör skylda að innihalda lagið á plötunni enda hefur það kætt margan góðan drenginn á tónleikum í gegnum tíðina. Á næstu lögum, XII og Soul Cremation, finnst mér heyrast vel hversu prófessjonal og gott sándið er á plötunni. Bassinn fær vel að njóta sín í geggjuðu sándi og án alls distortions sem mér finnst gera mikið fyrir bandið. A Breath of Hatred er svo ein allsherjar riffasprengja og þar má heldur ekki gleyma framlagi Gunna trommara hljómsveitarinnar sem tæklar þessi lög af mikilli fágun og alveg án þess að vera að yfirgera hlutina sem mér finnst of algegnt þessa dagana. Á seinasta lagi fáum við að heyra þokkalega epískar og óvæntar kórraddanir sem mér finnst gera mikið fyrir plötuna sem heild.
Á heildina litið verður The Nature of Entropy að teljast sem eitthvað metnaðarfullasta og magnaðasta verk þungarokks á Íslandi. Platan býður uppá ferskt og teknískt dauðarokk sem er einfaldlega í heimsklassa og gefur öðrum böndum innan þessarar stefnu ekkert eftir. Hinsvegar er platan ekki fullkomin og á hún til að renna saman á köflum og skilja lítið eftir sig. Ég mæli með að fólk versli þennan grip af Severed Crotch liðum en því miður þurftu þeir að taka sér pásu um daginn vegna utanför Gunna trommara. Platan kostar ekki meira en 2000 kr. og ætti að ylja öllum um hjartarætur.

www.myspace.com/severedcrotch

Wednesday, July 28, 2010

U.X Vileheads-First EP 7"




Af hverju er Svíar alltaf góðir í öllu? Bestu dauðarokksböndin, Watain, sætar stelpur, Volvo, húsgögn svo ekki sé einusinni minnst á fokking ABBA. Svíar gefa heldur ekkert eftir þegar kemur að pönki og í því samhengi má minnast á klassabönd eins og Ebba Grön, Auktion og auðvitað Refused. Hér er ég kominn með uppí hendurnar sjötommu frá einu slíku bandi, U.X Vileheads og heitir útgáfan því fróma nafni First EP. Það má einmitt minnast á það að gítarleikari bandsins, Fredrik, er að því sem ég best veit bróðir kyntröllsins Dennis Lyxzén sem sá um söng í Refused á sínum tíma. Ég verð að viðurkenna að ég var talsvert vongóður áður en ég skellti plötunni undir nálina og í stuttu máli sagt varð ég bara alls ekkert fyrir vonbrigðum. Ég hafði heyrt góða hluti um bandið frá miklum vitringum og gerði ég mér þá væntingar um gott pönk á sænska vísu. Svíarnir eru ekki lengi að koma sér að efninu og taka sér engan tíma í eitthvað óþarfa prjál. Þannig er best að hafa það. Hratt, hrátt og mikill djöfullgangur og fjör, gamaldags með take-no-prisoners attitjúdi og ekkert alltof mikilli alvöru. Svona á þetta að vera. Helsti löstur plötunnar finnst mér þó að ekki sé sungið á sænsku. Það er eitthvað svo skemmtilega goofy við sænsku sem mér finnst eiga svo vel við kærulaust pönk. Annars er fátt slæmt hægt að segja um þessa plötu, U.X Vileheads eru ekkert að finna upp hjólið á þessari útgáfu enda engin ástæða til, þetta er hressandi eins og þetta er.

Plötuna fékk ég fyrir tilstilli Birkir Fjalars og kann ég honum miklar þakkir fyrir það. Ef þið hafið gaman af því að lesa vel skrifuð vefrit um tónlist og menningu þá er bloggið hans Birkis eina vitið www.halifaxcollect.blogspot.com

www.myspace.com/uxvileheads

Thursday, February 11, 2010

DEATHSPELL OMEGA 1/3

Deathspell Omega er band sem hefur verið mér hugleikið talsvert lengi og hættir aldrei að koma mér á óvart. Eins og með sjálfsagt marga aðra aðdáendur bandsins vakti DsO fyrst áhuga minn vegna dulúðarinnar sem sveipar bandið en öll meðlimaskipan er á reiki og engar staðfestar heimildir eru um hverjir standa að bandinu. Auk þess hefur hljómsveitin aldrei spilað læv og textana er erfitt að nálgast og samkvæmt mínum upplýsingum er ekkert endilega kveðið á einu tungumáli heldur sé að finna textabúta með bandinu á grísku og sanskrít svo eitthvað sé nefnt. Eftir hljómsveitina liggja þó nokkrar útgáfur; fjórar breiðskífur, þrjár þröngskífur og fjöldinn allur af splittum og demóum. Eins og ætla má er efnið misgott en best þykir mér þó minni útgáfurnar og þá sérstaklega þröngskífurnar Veritas Diaboli Manet in Aeternum og Mass Grave Aesthetics og splitt sem þeir gerðu á móti Stabat Mater sem nefnist Crushing The Holy Trinity. Það sem þessar þrjár útgáfur eiga sameiginlegt er að þau innhalda öll einungis eitt lag hvort eftir bandið og eru lögin þrjú öll í kringum tuttugu mínúturnar. Í næstu þremur færslum ætla ég að fjalla um þessi þrjú lög hvor í sínu lagi en mér finnst DsO einmitt virka best í vel hlöðnum blackmetal langlokum


CRUSHING THE HOLY TRINITY



Þetta splitt gerðu Deathspell liðar á móti finnska bandinu Stabat Mater árið árið 2005. Maðurinn á bakvið Stabat Mater, Mikko Aspa, er að öllum líkindum söngvari Deathspell Omega og rekur hann útgáfufyrirtækið Northern Heritage í Finnlandi. Á þessu splitti er framlag DsO lagið Diabolus Absconditus sem er rúmar tuttugu mínútur að lengd.
Lagið byrjar á hryllingsmyndalegu stefi ásamt franskri bæn(ef frönsku kunnátta mín bregst mér ekki) sagða af konu. Fljótlega hefst þó hægt og drungalegt riff og þessi einkennandi DsO söngur, riffið er langdregið og verður drungalegra með hverri stundu og söngurinn leggur sitt af mörkum til andrúmsloftsins í laginu. Gítarleikurinn fjarlægist þó smátt og smátt og fljótlega skipa bassi, trommur og söngur aðal grunninn í laginu. Við því tekur þó svo einfalt en svo ótrúlega haunting blackmetal riff og áður en maður veit af er lagið komið í fulla keyrslu eftir þokkalega erfiða en mjög ánægjulega fæðingu. Gítarleikarinn í DsO er magnaður einstaklingur, ég á bágt með að trúa því að það séu margir lagasmiðir þarna úti sem eru jafn ófyrirsjáanlegir og hugvitssamir og sá, hver í fjandanum sem það er nú. Eitt það magnaðasta við DsO er þessi shock-factor sem sveitin býr yfir, maður veit aldrei hvað kemur næst og nánast engin tvö riff eru eins. Og þegar ég meina 'shock-factor' þá meina ég það einnig bókstaflega því ef það er eitthvað band þarna úti sem kann að láta þér bregða er það DsO. Mér þykir leitt að skemma það fyrir ykkur en það kemur einn slíkur kafli í kjölfar rólegs hálfgerðs-kassagítarkafla en þar eru rólegheitin, sem innihalda meðal annars æðislegt bassadútl, brotin upp með keyrandi illsku og grimmd. Eftir það tekur hvert riffið við öðru á því sem virðist oft vera handahófskenndum máta, maður veit aldrei hvar maður hefur þetta band. Lagið rennur út með hálfgerðu thrash riffi og kór undir, eitthvað sem er mjög svo einkennandi fyrir DsO(það er að segja kórinn, ekki þreskimálmurinn). Flottur endir á stórkostlegu verki sem virðist á köflum vera svo handahófskennt en er svo ótrúlega heilsteypt þegar upp er staðið.

http://rapidshare.com/files/232483947/Deathspell_Omega-Diabolus_Absconditus.rar

Thursday, January 7, 2010

PLÖTUR ÁRSINS 2009

Er búinn að tína saman lista yfir bestu plötur ársins sem var að líða. Búið að vera í heildina litið mjög áhugvert og almennt séð gott ár fyrir lúða eins og mig. Hardcore og pönk skipaði stóran sess á listanum sem og annað þungarokk og öfgatónlist.



1.Magrudergrind-Magrudergrind
Ég vissi satt best að segja ekki alveg við hverju ég átti að búast þegar ég setti þessa plötu fyrst undir nálina. Hafði heyrt áður í þessu bandi fyrir einhverjum árum og ekki verið hrifinn og var þessvegna ekkert svakalega spenntur. Hinsvegar fékk ég bara sprengju í andlitið og varð hæstánægður og er enn. Þessi plata inniheldur svo mikið ofbeldi og ruddaskap að líkamlegir áverkar eftir áhlustun á þessa plötu eru ekki óalgengir. Öll pródúksjón og sánd er til fyrirmyndar og gefur mikið fyrir plötuna. Þessi plata hitti right up my alley og ég get ekki beðið eftir næstu útgáfu. www.myspace.com/magrudergrind

2.Converge-Axe To Fall
Converge breyta ögn um stefnu á þessari plötu og eru þær bara til góðs að mínu mati, gefur meiri fjölbreytni og ferskleika. Ekkert vantar þó uppá þungann og þau element sem hafa einkennt Converge í gegnum árin en önnur element eru látin vega upp á móti og það virkar mjög vel. Margir gestleikarar eiga framlag á plötunni og gefur það henni enn meiri fjölbreytni og verður hún enn fróðlegri fyrir vikið. Converge eru bara að verða betri. www.myspace.com/converge

3.Cult Ritual-1.st LP
Þetta band virtist hafa birst bara uppúr engu og er þetta band vægast sagt dularfullt að öllu leyti. Tónlistin er hardcore pönk í grunninn en minnir um margt á noise-pönk og minnir sándið á henni mig talsvert á frumburð Sonic Youth, Confusion is Sex. Gítarsándið og söngurinn er óldskúl og má heyra mikil áhrif frá eldra hardkori, hinsvegar er það væbið sem gerir hvað mest fyrir plötuna, eitthvað atmo sem er virkilega erfitt að lýsa með orðum. Cult Ritual eru of mysterious fyrir mæspeis.

4.Lewd Acts-Black Eye Blues
Eitt mest spennandi hardkor bandið í dag, virðist vera hefðbundið hardkor á yfirborðinu en það er eitthvað við þessi lög sem grípur mig á annan hátt en hardkor pönk gerir vanalega. Þetta er grimmt og ljótt og textarnir eru oftar en ekki persónulegir sem gerir mikið fyrir stemminguna á plötunni. http://www.myspace.com/lewdacts

5.Jay Reatard-Watch Me Fall
Það kæmi mér bara alls ekki á óvart ef þessi gaur færi að fá einhverjar spilanir í útvarpi bráðlega. Fáránlega grípandi indí-popp-pönk, skemmtilega hallærislegt á köflum. Retarðurinn hefur gott nef fyrir skemmtilegum melódíum sem límast við heilann á manni og maður sönglar allann daginn án þess að taka neitt sérstaklega eftir því. Fylgist með þessum gaur. http://www.myspace.com/jayreatard

6.Propagandhi-Supporting Caste
Propagandhi eru ennþá bara helvíti sprækir eftir öll þessi ár, 24 eru þau að verða alls. Textagerð er þá sérstaklega til fyrirmyndar og er póltískt beittur sem endranær. Pönk rokk með smá thrash sveiflum hér og þar, oft og tíðum komplex riff á pönk standarda allavega. Eftir því sem ég best veit má hlusta á alla plötuna á alnetinu. www.myspace.com/propagandhi

7.Katharsis-Fourth Reich
Hágæða black metal finnst mér erfitt að finna en þessi plata telst algjörlega til þess í mínum bókum. Var ögn stressaður yfir "raw black metal" stimplinum á þessu bandi en að því leyti til stendur bandið ekki undir nafni því platan sándar bara hörkuvel. Það þýðir samt ekki að hún sé ekki gróf, hún er það vissulega, en það gerir bara meira fyrir atmóið. Eins og gefur að skilja er KTHRSS of kvlt fyrir mæspeis.

8.Every Time I Die-New Junk Aesthetic
Er með soft-spot fyrir þessu bandi en á þessari plötu eru þeir að dútla í sömu pælingum og á fyrri verkum þeirra. Vel rokkað hardcore pönk með dassi af 'tongue-in-cheek' textum og grípandi riffum. Ekki jafn góð og seinustu tvær útgáfur en hörkugóð engu að síður. www.myspace.com/everytimeidie

9.Ulcerate-Everything is Fire
Eitthvað einstakasta dauðarokksband sem ég hef nokkurntímann heyrt í. Níðþung og crushing með ótrúlega inventive riffum og lagauppbyggingum. Eins og segir í ritdómi mínum á plötunni hér neðar á síðunni minna þeir helst á Deathspell Omega ef þeir spiluðu dauðarokk. Framsækið dauðarokk fyrir lengra komna. www.myspace.com/ulcerate

10.Funeral Mist-Maranatha
Einsmannsprójekt frá Svíþjóð, alvöru nútíma black metal. Hlaut mikla athygli eftir seinustu plötu, Salvation, og ekki hefur athyglin minnkað eftir þessa útgáfu og hefur Funeral Mist fest sig í sessi sem ein af áhugaverðustu black metal böndum dagsins í dag. Skerí riff og drungalegt atmó, alls ekki fyrir hvern sem er, hágæða black metal engu að síður. Funeral Mist eru ekki of kvlt fyrir mæspeis www.myspace.com/thefuneralmist

11.Pulling Teeth-Paranoid Delusions/Paradise Illusions
12.Trapped Under Ice-Secrets Of The World
13.Reign Supreme-Testing The Limits of Infinite
14.Totalt Javla Morker-Söndra og Harska
15.Weekend Nachos-Unforgivable
16.Behemoth-Evangelion
17,Agoraphobic Nosebleed-Agorapocalypse
18.Brutal Truth-Evolution Through Revolutiuon
19.Sólstafir-Köld
20.Tortoise-Beacons of Ancestorship